Velferðarnet Suðurnesja hélt vel heppnaðan samráðsfund 5. október 2023. Fulltrúar sveitarfélaganna, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og ríkisstofnana á Suðurnesjum fóru yfir farinn veg og framtíð verkefnisins. Til fundarins mætti starfsfólk fyrrnefndra aðila, sem hefur tekið þátt í mótun Velferðarnetsins auk þess mættu stjórnendur og kjörnir fulltrúar á fundinn.
Velferðarnet Suðurnesja er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum og fjögurra ríkisstofnana sem eru í beinni þjónustu við íbúa á Suðurnesjum, þ.e. Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Lögreglunnar, Sýslumanns og Vinnumálastofnunar.
Fundurinn var ákveðin uppskeruhátíð verkefnisins sem hefur verið í þróun og framkvæmd síðastliðin tvö ár. Mikið hefur áunnist í verkefninu á þeim tíma og dýrmætt tengslanet myndast á milli þeirra átta þátttökustofnana Velferðarnetsins.
Meginmarkmið Velferðarnets Suðurnesja er að þróa opinbera þjónustu á Suðurnesjum með það fyrir augum að hún taki enn betur mið af íbúum svæðisins og sé sem best samþætt á milli þjónustuveitenda og faghópa.
Ljóst var af niðurstöðum fundarins að mikill vilji er fyrir því að halda verkefninu áfram og innleiða það enn frekar. Með samstarfinu verði boðleiðir á milli starfsstöðva og faghópa styttri, verkefnið auki starfsánægju þeirra sem starfa á opinberum vettvangi í þágu íbúa og sé þannig íbúum til heilla. Heildarávinningur verkefnisins er því mikill fyrir íbúa, stofnanir og starfsfólk.
Á fundinum var formlega opnuð vefsíðan sudurnes.is – Velkomin til Suðurnesja.
Velkomin til Suðurnesja er samræmd móttaka nýrra íbúa á Suðurnesjum.
Markmiðið er að nýir íbúar upplifi sig velkomna, þeir séu upplýstir um helstu þjónustu og afþreyingu á svæðinu og verði sem allra fyrst virkir þátttakendur í samfélaginu. Vefsíðan er í stöðugri þróun og mun verða þýdd á ensku innan skamms.
Það er von Velferðarnets Suðurnesja að síðan komi íbúum, starfsfólki sveitarfélaga og ríkis sem og starfsmönnum fyrirtækja á svæðinu að góðum notum.
Á Facebook síðu Velferðarnetsins má sjá stutt myndband frá deginum, sjá hér.
Nokkrar myndir frá fundinum:
コメント